154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, alveg hárrétt. Ég tek undir hvert orð þarna. Eins og ég sagði áðan, svona flatur niðurskurður á öll málefnasvið og útilokaðir ákveðnir grunninnviðir, að einhverju leyti, ekki alveg öllu kannski, finnst mér, skólarnir t.d., framhaldsskólarnir, eru að fá þarna hálfan milljarð í mínus sem dæmi — mér finnst það nú og hæstv. menntamálaráðherra fannst þetta líka það langmikilvægasta fyrir uppbyggingu upp á framtíðina að gera, þannig að þetta er ekki alveg akkúrat á þeim stað sem ég myndi segja að væri sniðugt, því að einmitt eins og hv. þingmaður segir þá vantar pólitíkina í þetta. Að setja svona flata kröfu, bara yfir nokkurn veginn allt, sýnir einmitt skort á pólitík. Það sýnir skort á forgangsröðun. Þetta snýst ekki um jafnræði eða neitt því um líkt, því að við þurfum að forgangsraða. Við þurfum að segja: Þetta verkefni er mikilvægara en hitt verkefnið. Það er það sem við erum að gera hérna. Það er starf okkar að forgangsraða. Með það förum við út í kosningar og segjum: Okkur finnst skólakerfið og menntakerfið mikilvægara en að ríkt fólk fái lága skatta eða eitthvað því um líkt, bara sem dæmi. Þess vegna, eins og hv. þingmaður segir, vantar pólitíkina í þetta. Maður hefur orðið var við að þessi ríkisstjórn er einmitt búin með sína pólitík, var búin með sína pólitík eiginlega bara nokkurn veginn þegar Covid skall á. Þá var farin að vera pínu málaþurrð. Þau voru búin með þessi stóru mál sem voru búin að vera í þinginu að malla, sem náðist engin niðurstaða á. Einhvern veginn náðu þau samkomulagi um að klára nokkur mál þar. Gott og blessað. Svo var það bara búið. Þess vegna erum við bara með flatan niðurskurð en engar sérstakar ákvarðanir. (Forseti hringir.) Skólarnir þurfa líka góðar pólitískar ákvarðanir til að falla ekki í einhvers konar skilvindu þessara sameininga o.s.frv.